Ávarp flutt á landsmóti hagyrðinga í Stykkishólmi - 3. september 2011

Ágætu mótsgestir.

 

Ég vil byrja á að þakka fyrir þann heiður að vera boðinn hingað í kvöld. Ég er afar þakklátur fyrir það. Reyndin er nefnilega sú að ég hef alltaf borið virðingu fyrir góðum hagyrðingum. Menn og konur sem geta sett hugsun sína fram í því meitlaða formi sem forfeður okkar og formæður hafa þróað og þroskað og vakað yfir um aldir, hagyrðingarnir sem geta gert hvern lögfræðing, viðskiptajöfur, stjórnmálamann, þráhyggju-besservisser og morfís-verðlaunahafa kjaftstopp með fjórum línum, stundum ekki nema þremur, þeir eiga alla mína aðdáun. Ég fullyrði að í mínum huga er miklum mun merkilegra að vera góður hagyrðingur en að vera doktor. Ég hef fengist við stuðlasetninguna frá því að ég var um sjö ára gamall, nánar tiltekið í sextíu ár en ég var ekki nema sex ár að skrifa doktorsritgerðina. Það er ljóst, eftir þessi sex ár, að ég er óumdeilanlega orðinn doktor en eftir þessi sextíu ár í bragnum er ég enn ekki viss um að ég sé orðinn góður hagyrðingur. Til að ná þeim bestu hér inni þyrfti ég önnur sextíu ár.

Í mínum huga er bragurinn, með þetta dularfulla og magnþrungna samspil stuðla og höfuðstafa, svo samslunginn sjálfsvitund okkar sem þjóðar að þetta tvennt verður alls ekki aðskilið. Til forna ortu menn ekki bara lofkvæði um konunga og jarla til að framfleyta sér og komast til metorða. Menn ortu um allt milli himins og jarðar. Egill Skalla-Grímsson tjáði allt tilfinningalitrófið, allt frá draumum barnsins um frama á fullorðinsárum (sem fólust reyndar í því að fara til útlanda og drepa menn, það hefði að sumra dómi fallið vel inn í umræðuna um Evrópusambandið), þaðan í galgopalegar hólvísur um sjálfan sig, þá á fylliríi og kvennafari úti í Noregi, yfir í harmþrungin sorgarljóð eftir syni sína eða hatursfullar morðhótanir gagnvart mótstöðumönnum sínum ýmsum sem hann hugðist úrbeina með sverðinu, og kom verklýsingunni prýðilega fyrir innan ramma ríms og stuðla, - endar svo í hógværum yfirlýsingum um að nú sé hann orðinn heyrnarlaus og geti þar að auki ekki lengur gert hitt. Allt undir hefðbundnum bragarháttum. Þeim sem tileinkuðu sér þessa bragarhefð varð allt að ljóðum. Þegar Rögnvaldi jarli Kala Kollssyni var orðið svo kalt að hann gat naumast talað varð tannaglamrið að hendingum:

 

Dúsið ér, en Ása

- atatata – liggr í vatni,

hutututu – hvar skalk sitja

(heldr er mér kalt) við eldinn.

 

Kuldaskjálftinn í Rögnvaldi verður þarna ómissandi þáttur í hárrétt gerðri braglínu. Geta menn ímyndað sér nánari tengsl við kveðskapinn?

Það er líka sérdeilis gaman að rýna í persónuleika skáldanna gegnum braglínurnar sem þau skilja eftir. Sjálfur höfundur Lilju, kvæðisins sem allir vildu kveðið hafa vegna þess hve fagurt það er og fullt af guðrækilegum anda, hann var ekki alltaf jafnguðrækilegur, til dæmis þegar hann var að kveðast á við Gyrði biskup. Gyrður orti um sjálfan sig:

 

Gyrðr kembir nú gula reyk

með gylltum kambi.

 

Það skín í gegn að biskupinn er ánægður með sig og finnur nokkuð til sín. En Eysteinn botnar vísuna:

 

Kominn ertu úr krókasteik

þinn kúluvambi.

 

Það er ekkert heilagt við þennan botn. Þessi tegund kveðskapar var byrjuð snemma. Það hefur vakið athygli að í fornum íslenskum lögum er harðar tekið á níðkveðskap en annars staðar á Norðurlöndunum. Líklega var ástæða til þess.

 

Kominn ertu úr krókasteik

þinn kúluvambi.

 

Mér hefur alltaf þótt vænt um þennan vísubotn. Hagyrðingar eru þekktir fyrir að virða hvorki tignarheiti, embættistitla, auð, völd eða ættarljóma. Í augum hagyrðinganna eru allar krókasteikur eins.

Það er til svo mikið af skemmtilegum vísum að þar er enginn endir á. Hagyrðingarnir fara gjarnan út fyrir mörkin, segja eitthvað sem má ekki segja eða koma með alveg ný sjónarhorn á gömul og útjöskuð málefni, breyta klisjunum í eitthvað nýtt og skemmtilegt. Hugsið ykkur Ljósavatnssystur sem voru að jarða föður sinn og þekktu áreiðanlega a.m.k. hundrað útfarar- og minningarljóð sem voru öll eins. Þær gerðu þetta nokkuð á annan veg:

 

Dauðinn allra dregur hlass,

dapur er lífsins vegur.

Farðu nú í fjandans rass

faðir minn elskulegur.

 

Einhver anónýmusinn setti saman skothelda greiningu á geðsjúkdómi sem á fræðimáli kallast „Manio-Depression“, þ.e.a.s. þeirri hlið sjúkdómsins sem niður snýr:

 

Allur hugur úr mér drepinn

engin fæðist hugsun nýt.

Auðnuleysis- þramma ég -þrepin

þangað til ég verð að skít.

 

Og nú langar mig til að segja fáein orð um framgang braghefðarinnar? Sumir bókmenntafróðir menn vilja halda því fram að hefðbundna ljóðformið sé dautt, hafa meira að segja reynt að klína yfirlýsingu þar að lútandi á Stein Steinarr, sem er löngu dáinn og getur ekki varið sig. Ég segi að ef hefðbundna ljóðformið er dautt þá er ég líka dauður sem og við öll sem hér erum saman komin. Við skulum nú skoða það mál. Kona sem er örlítið eldri en ég og alin upp á svipuðum slóðum hafði þann sið að safna í bók góðum vísum sem urðu til í umhverfi hennar eða bárust henni annars staðar frá. Hún mun hafa byrjað á þessu á sjötta áratugnum og fram á sjöunda tuginn fylgdist ég svolítið með þessu og fékk stundum að kíkja í bókina. Inn í þá bók fór ekkert nema það væri vel gert og rétt. Hennar brageyra var (og er) í góðu lagi. Ég flutti svo að austan og gleymdi vísnabókinni góðu þar til einhvern tíma undir aldamótin að ég var staddur á Austurlandi og hitti konuna, spurði þá hvernig gengi að safna nýjum vísum. Hún dæsti og hristi höfuðið. „Ég er löngu hætt þessu,“ sagði hún. „Þetta jókst svo gríðarlega þegar kom fram undir aldamótin, það var orðið svo mikið af vísum og þær voru svo skemmtilegar og hver annarri betri. Ég gafst upp á að skrifa þær niður.“

Þetta bendir ekki til þess að hefðin sé að líða undir lok.

Sannleikurinn er sá að ég hef um áraraðir vitað af fjölda fólks sem yrkir hefðbundin ljóð. Margir gera þetta ljómandi vel og í langflestum tilvikum er rétt ort samkvæmt hefðinni. Þessi kveðskapur hefur hins vegar legið í láginni og lítið verið haldið á lofti. Þeir sem á sínum tíma kváðu upp úr með það að ljóðhefðin væri dauð halda fast við sína skoðun og fyrir mörgum þeirra er ljóðhefðin dauð.

Árið 2009 kom út ljóðabók sem heitir Bréf til næturinnar. Höfundurinn er kona sem heitir Kristín Jónsdóttir og hafði ekki áður blandað sér í hóp skálda og rithöfunda. Ljóðin eru öll ort undir hefðbundnum formum, af mikilli fimi og næmu eyra. Ég kom að þessu máli vegna þess að ég þekkti til konunnar og þess vegna get ég upplýst það hér og nú að ég gekk með þetta handrit milli bókaútgáfufyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu í fimm ár og niðurstaðan var alls staðar sú sama. Enginn vildi gefa bókina út. Að lokum gafst ég upp og samdi við Félag ljóðaunnenda á Austurlandi um að láta prenta kvæðin. Þegar bókin var komin út brá hins vegar svo við að hún seldist upp á nokkrum vikum og var endurprentuð að ég hygg tvisvar innan árs frá því að hún kom út. Ritdómur sem birtist í Fréttablaðinu var svo lofsamlegur að ég las hann þrim sinnum áður en ég trúði mínum eigin augum. Það var því ljóst að hvaða bókaútgáfa sem hefði tekið handritið hefði hagnast vel. Og hvers vegna fékkst bókin þá ekki gefin út? Félagi minn, bókmenntafræðingur sem um þessar mundir kennir við hliðina á mér, skýrði þetta fyrir mér á þann veg að á bókaútgáfunum væri fólk sem kynni ekki bragfræði og vissi ekki haus eða sporð á því hvort rétt væri ort eða rangt. „Þetta fólk þorir ekki að taka ákvarðanir um hefðbundin ljóð,“ sagði hann. „Það veit ekkert um þessa hefð og þessu fer, ef nokkuð er, heldur hrakandi með árunum.“

Þetta bendir til þess í samfélagi okkar þrífist tvær þjóðir. Önnur býr við dauða ljóðhefð sem hefur verið að fjara út undanfarna áratugi og stefnir í einhvers konar bragfræðilegt alkul, hjá hinni þjóðinni er ljóðhefðin í fullu fjöri og blómstrar og bætir við sig skáldum, hagyrðingum og nýjum ljóðperlum sem aldrei fyrr. Ég er svo heppinn að hafa lengst af haft félagsskap af þeim síðarnefndu.

Sá hluti þjóðarinnar sem býr við lifandi ljóðhefð er nefnilega miklum mun skemmtilegri en hinn helmingurinn sem býr við dauðu ljóðhefðina (við gætum kannski kallað þá kirkjugarðshlutann). Ég gæti staðið hér til morguns og flutt dæmi um skemmtilegar vísur sem orðið hafa til á allra síðustu tímum. Hjálmar Freysteinsson orti ljóð sem heitir því skáldlega nafni Fuglinn í fjörunni:

 

Harla sæt verður hefndin þá,

harðlega barist, flogist á,

þegar ég loks í fjöru finn

fuglinn sem skeit á bílinn minn.

 

Hjálmar er læknir og hann hefur ort merkileg ljóð um bíólógíuna, eins og til dæmis þessa limru:

 

Ársól með gáfnanna gnótt

hefur löngum í listirnar sótt.

Hjá ungskáldi sefur

og egglos hún hefur

eingöngu á menningarnótt.

 

Og það var þessi sami Hjálmar sem sendi inn á leirlistann (þ.e. póstlista hagyrðinga) sakleysislega limru. Þetta var síðla í febrúar eða í byrjun mars, áthátíðir í fullum gangi og limran setti af stað mjög áhrifaríka keðjuverkun meðal hagyrðinganna sem eru á þessum póstlista:

 

Bollur ég ét á bolludaginn,

baunir og saltkjöt á sprengidaginn.

en iðrast hann má

maðurinn sá

sem át konuna sína á konudaginn.

 

Eftir augnablik kom inn önnur vísa í sama dúr eftir Ólaf Halldórsson:

 

Bollur ég ét á bolludaginn,

baunir og saltkjöt á sprengidaginn.

En þó hugur sé á

ekki húsfreyjan má

hafa bóndann í matinn á bóndadaginn.

 

Nokkrum mínútum seinna kom fyrirspurn norðan frá Grenivík þar sem skólastjórinn Björn Ingólfsson sat við tölvuna:

 

Ef bollur skal éta á bolludaginn

og baunir og saltkjöt á sprengidaginn,

þá er mér spurn,

spekingar, hvurn

andskotann étiði á öskudaginn?

 

Það liðu ekki nema nokkrar mínútur, þá kom inn svar frá Kristjáni Eiríkssyni:

 

Bollur ég ét á bolludaginn,

baunir og saltkjöt á sprengidaginn.

Svo fæ ég mér bjór

og byrja mitt þjór

og verð öskufullur á öskudaginn.

 

Þetta var á Leirlistanum. Og Jón Ingvar orti um limruna, mér finnst þetta framlag hans minna á Bókina um veginn, – þar sem rætt er um nytsemi hins tilvistarlausa:

 

Limran svo langt sem hún nær

er ljóðform með skammlínur tvær.

...

 

En þessi er ekki með þær.

 

Þetta er ekki verri taóismi en hvað annað.

Eins og sést á þessu þá er ljóðhefðin ekki dauð, ekki okkar megin. Hugsið ykkur nú hvílík forréttindi það eru að geta búið við þessa hefð, sprelllifandi, frjóa og skemmtilega.

Ágætu hagyrðingar. Ég hef nú senn lokið máli mínu. Ég ætla að enda á því að hvetja til þess að við stöndum saman um braginn, að við sameinumst í baráttunni fyrir því að varðveita þennan arf sem forfeður okkar og formæður hafa skilað til okkar, að við leggjumst öll á eitt við það að gera veg hins hefðbundna ljóðs sem mestan. Ljóðformið sjálft er nokkurs virði út af fyrir sig. Þetta er menningararfleifð sem við eigum saman og hefur lifað á vörum þjóðarinnar í 1200 ár. Ég hvet til þess að við kennum börnunum okkar að yrkja. Fátt er eins ljúft og þegar afkomendur manns láta fjúka í hendingum. Ég var líka í meira en tvo áratugi í unglingadeildum grunnskólanna og þar kenndi ég bragfræði hvenær sem ég hafði tíma til. Þarna urðu til margar skemmtilegar vísur. Nemandi í 9. bekk grunnskólans á Reyðarfirði orti:

 

Hér hösluðu víkingar vaskir

sér völl fyrir leiki og starf

og við tökum dáðir og drauma

og drykkjuskap þeirra í arf.

 

Hún var líka í 9. bekk í skóla hér í Reykjavík stúlkan sem botnaði vísuna fyrir mig. Ég skrifaði fyrstu línuna á töfluna:

 

Nú er úti sumarsól

 

og stúlkan bætti við:

 

sælar júlínætur

ég ætla með hann upp í ból

af því hann er sætur.

 

Og hann var í 8. bekk sá sem orti um bekkjarsystur sínar þegar þau voru öll í fermingarundirbúningnum:

 

Stúlkur sátu í stólum þétt

stórar gerðust eyðslur

fyrir pottþétt permanett

og púkalegar greiðslur.

 

Eftir þetta þýðir ekkert að segja mér að börnin geti ekki lært að yrkja, - rétt. Þarna er ljóðhefðin ekki dauð, hún er lifandi og fersk rétt eins og börnin okkar sem eru að nota hana og yrkja vel og gera fallegar og skemmtilegar vísur. Ég trúi því að komandi kynslóðum muni þykja vænt um þessa hefð og þær muni varðveita hana og njóta hennar eins og við höfum gert.

Það er gott að hugsa til þess.