Áttundi pistill

Rímnahættir

Rímnahættir kallast einu nafni þeir bragarhættir sem byggjast upp á tvíliðum sem eru ekki fleiri en fjórir í hverri línu (ath. þó braghendu), hafa fjórar braglínur eða færri og eru með ljóðstöfum og endarími.

Eins og fram kom í 7. pistli skiptast rímnahættir í ferkvæða hætti (vísur með fjórum braglínum), þríkvæða hætti (vísan er þá þrjár braglínur) og tvíkvæða hætti (tvær braglínur hver vísa).

Ferkvæðir hættir skiptast í ferskeytluætt og stafhendurætt. Ferskeytluættin einkennist af víxlrími, endarímið er þannig að 1. og 3. braglína ríma saman og svo 2. og 4. Dæmi:

 

Stakan er, ef marka má

margar vísur snjallar

afbragðs græja til að tjá

tilfinningar allar.

(Dagbjartur Dagbjartsson. Skráð eftir höfundi um 2008)

 

Fjöldamörg afbrigði eru til af ferskeytluættinni. Þar má nefna langhenduna:

 

Sjaldan varstu viðbragðsfljótur,

var þín leti um sveitir spurð,

en þér var aldrei þungur fótur

þyrfti mann í söguburð.

(Bragi Björnsson 1985:29)

 

Næst er breiðhenda:

 

Værð í húsi víst ég lofa,

við að hvílast er ég natinn.

Til hádegis ég helst vil sofa

og halla mér svo eftir matinn.

(Ólafur Runólfsson. Skráð eftir höfundi um 2002)

 

Gagaraljóð heitir eitt afbrigðið. Þá eru allar línur jafnlangar og allar enda á stýfðum lið:

 

Stóra átt sjóði, stærðar bú

en stagbætt eru fötin þín.

Ef ég væri eins og þú

ósköp mundi ég skammast mín.

(Bragi Björnsson 1985:33)

 

Stafhenduættin einkennist af runurími. 1. og 2. braglína ríma saman og svo 3. og 4.

 

Ég sá og þekkti systur tvær,

en Synd og Glötun hétu þær.

Í húsi þeirra ég vinsæll var, -

og við mig léku systurnar.

(Kristján N. Júlíus (K.N.) 1945:29)

 

Stundum ríma línurnar allar saman og heitir það þá samhent:

 

Allur þessi asaþys

eykur spennu, magnar slys.

Látum ekki glaum og glys

glepja okkur.is

(Sveinn Björnsson. Skráð eftir höfundi um 2000)

 

Þá er dæmi um þríkvæðan hátt. Þar er braghendan langalgengust:

 

Djöfull var nú, drengir, gott að detta í´ða.

Mega frjáls um fjöllin ríða

og fullur oní pokann skríða.

(Brynjólfur Guðmundsson. Sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2005:46)

 

Tvíkvæðir hættir eru sem fyrr segir aðeins tvær braglínur:

 

Hægra er að passa hundrað flær á hörðu skinni

en píkur tvær á palli inni.                   (Sjá Jóhann Sveinsson 1947:52)

 

Hættirnir eru miklu fleiri en hér er getið um. Í Bögubókinni, 15. kafla, er að finna dæmi um 20 helstu bragarhættina. Í bók Sveinbjarnar Beinteinssonar, Bragfræði og háttatali (Leiftur hf. 1953), getur auk þess að líta fjölmörg rímafbrigði af hverjum hætti. Þá bók ættu allir vísnaunnendur að lesa. Og ekki verður skilið við rímnahættina án þess að minnast á Safn til bragfræði íslenskra rímna eftir Helga Sigurðsson (1891). Sú bók er biblía þeirra sem leggja stund á þessi fræði.

Fleira verður ekki fjölyrt um bragarhætti að þessu sinni. Að lokum skal þó bent á þá staðreynd að það er vel hægt að gera góða vísu án þess að vita hvað bragarhátturinn heitir. Nöfnin á háttunum eru ágæt fyrir fræðimenn og grúskara (og námsmenn eins og ykkur) en margir góðir hagyrðingar leggja þau ekki á minnið. Þið þurfið þó að geta fundið nöfn háttanna með því að slá upp í fræðunum. Það er næsta auðvelt ef þið eruð vön að skoða vísur af nákvæmni og glöggskyggni.

 

Heimildir:

Bragi Björnsson. 1985. Agnir. Menningarsamtök Héraðsbúa.

Helgi Sigurðsson. 1891. Safn til bragfræði íslenzkra rímna að fornu og nýju. Prentað í Ísafoldarprentsmiðju, Reykjavík.

Jóhann Sveinsson. 1947. Ég skal kveða við þig vel. Helgafell, Reykjavík.

Kristján N. Júlíus (K.N.)  1945. Kviðlingar og kvæði. Bókfellsútgáfan hf., Reykjavík.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2004. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auk. Fyrri hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2005. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auki. Seinni hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.