Fjórði pistill

Hér á eftir fara nokkur orð um sérhljóðana í stöðu ljóðstafa og eftir það er lítilsháttar umfjöllun um ljóðstafinn s.

Sérhljóðar sem ljóðstafir

Sérhljóðarnir mynda saman einn stóran jafngildisflokk. Þessi hefð er eldri en elstu heimildir um kveðskap. Fyrst er getið um þessa reglu í Snorra-Eddu:

 

„En ef hljóðstafr er höfuðstafrinn, þá skulu stuðlar vera ok hljóðstafir, ok er fegra at sinn hljóðstafr sé hverr þeira“ (Snorri Sturluson 1999:4).

 

Þarna segir Snorri að fallegra sé að hafa mismunandi sérhljóða, þ.e. ef við notum sérhljóða sem ljóðstafi er betra að hafa ekki nema einu sinni þann sama. Það er þó ekkert í reglum sem bannar það. Lítum á þessa vísu:

 

Einn til fundar oft ég kem

óðardís að hitta.

Efalaust ég enda sem

andleg fyllibytta.                         (RIA á æskuárum)

 

Í þessari vísu má sjá dæmi um hvort tveggja. Í fyrri hluta vínunnar eru sérhljóðarnir þrír; ei, o og ó. Í frumlínu seinni helmingsins er sérhljóðinn hinn sami; Efalaust og enda. Höfuðstafurinn er svo a. Glöggt má sjá að stuðlar seinni frumlínunnar eru ekki eins reisulegir og hinnar fyrri (sjá einnig Ragnar Inga Aðalsteinsson 1990:21-22).

Mjög algengt er að sjá sérhljóða notaða sem ljóðstafi. Það er eðlilegt vegna þess hve þessi jafngildisflokkur er stór. Því miður er líka algengt að sjá sérhljóða rangt notaða. Það á einkum við um ofstuðlun. Það er eins og sumum finnist að ef þeir noti sérhljóða sem ljóðstafi sé leyfilegt að hafa eins marga sérhljóða í áhersluatkvæðum og mönnum sýnist:

 

Upphafið og endinn hef ég enga hugmynd um …

 

Í þessari frumlínu eru fjórir stuðlar (sjá feitletrun).

Skoðum að lokum vísu sem Jói á Stapa gerði eitt sinn fyrir kosningar:

 

Eitt hér sjá menn yfir vofa

engin gefst nú ró.

Auðvitað þarf ýmsu að lofa

eigi að svíkja nóg.                        (Skráð hér eftir minni RIA)

 

 

 

Um ljóðstafinn s

Til forna stuðlaði sk aðeins við sk, sp við sp, st við st og ef til vill líka sm við sm. Klasarnir sj, sv, sl, sn og s+sérhljóð stuðluðu hver við annan. Einhvern tíma undir lok miðalda (e.t.v. um 1400) breyttist þetta á þann hátt að eftir það stuðlaði sl aðeins við sl og sn við sn. Sj, sv og s+sérhljóð héldu áfram að stuðla saman og gera það enn. Þannig hefur hin forna regla um sk, sp og st, þ.e. að þessi hljóð stuðli aðeins innbyrðis en ekki hvert við annað eða við önnur s-pör, yfirfærst á samhljóðasamböndin sl, sm og sn þannig að nú stuðla þau sambönd ekki hvert við annað né við s. Snorri Sturluson (1999:30) stuðlaði þannig:

 

Slóð kann sneiðir

seima geima ...

 

Á ofanverðri 17. öld stuðlar Hallgrímur Pétursson (1996:202) á annan hátt í sálminum Um dauðans óvissan tíma:

 

... slyngum þeim sláttumanni

er slær allt hvað fyrir er.

 

og í 12. Passíusálmi (1996:72) eru þessar ljóðlínur:

 

... sem fugl við snúning snýst

sem snaran heldur.

 

Ekki hafa allir stuðlað í samræmi við þessa reglu í seinni tíð eins og fram kemur hér á eftir.

Gnýstuðlar

Gnýstuðlar kallast þessi s-pör þegar þau ganga ekki sem ljóðstafir hvert með öðru heldur aðeins hvert fyrir sig. Hvað varðar þá gnýstuðla sem síðar komu til, þ.e. sl, sm og sn, þá eru ekki allir sammála um að það séu raunverulegir gnýstuðlar og sum skáld hafa notað þá með öðrum s-pörum allt fram á 20. öld (sjá um s-stuðlun hér á eftir) (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:xviii; Sigurður Kristófer Pétursson 1923:358).

 

 

Skrifaðu bæði skýrt og rétt

svo skötnum þyki snilli;

stafir í orðum standi þétt,

stærra bil á milli.                     (Sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2004b:74)

 

Veitti lundur hringa hart

högg á grundu kauða.

Slomp í sundur slæmdi snart

slangan unda rauða.               (Símon Dalaskáld 1950:51)

 

S-stuðlun

Heitið s-stuðlun er notað um það þegar s+sérhljóð, sj og sv stuðla á móti stafapörunum sl, sm og sn og einnig þegar þau pör stuðla saman innbyrðis. Ef litið er þannig á að gnýstuðlarnir, sem rætt var um hér að ofan, séu sex, er s-stuðlun óleyfileg samkvæmt bragreglunum. Þessi stuðlun hefur þó verið notuð frá fyrstu tíð og henni bregður fyrir allt fram á 20. öld (sjá m.a. Þorstein G. Indriðason 1990:8). Skoðum nokkur dæmi um s-stuðlun:

 

ll í lskinsbrekku

smalinn horfir á

 

(Steingrímur Thorsteinsson, sjá RIA 2004a:58)

 

sem um Snæfell brenni

sumarlogi skær.                               (M. Joch., sjá RIA 2004a:59)

 

syngur yngsta konungi

Snælands Gýmir frægðar-rímu       (M. Joch., sjá RIA 2004a:59)

 

Sjáðu til, þar sitja margir

og smátt mun eftir handa þér.         (Steinn Steinarr, sjá RIA 2004a:60)

 

Svo styttist þessi ganga smátt og smátt,

og seinast stendurðu einn við luktar dyr.    (Steinn Steinarr, sjá RIA 2004a:60)

 

Nokkuð hefur verið deilt um það hvort sú stuðlun, sem sýnd er hér að ofan, sé rétt eða röng. Frá mínum bæjardyrum er alveg ljóst að s-stuðlun er ekki leyfileg samkvæmt þeim bragreglum sem hér hafa þróast. Eins og fyrr sagði lagðist þessi stuðlun af um 1400 (þessi tímasetning er ekki nákvæm) og eftir það verður ekki vart við s-stuðlun fyrr en 300 árum síðar þegar menn taka hana upp aftur á öðrum forsendum en áður og telja sig vera að líkja eftir fornkveðskapnum.

Að stuðla við sníkjuhljóð

Það er kallað að stuðla við sníkjuhljóð þegar st er látið stuðla við sn/sl og sp stuðlar við sm. Þessi stuðlun er afleiðing af hljóðbreytingu sem fólst í [t] innskoti milli s og l/n annars vegar og [p]-innskoti milli s og m hins vegar. Eftir að þessi hljóðbreyting varð hefur sníkjuhljóðsstuðlunar alltaf af og til orðið vart í kveðskap (sp á móti sm er þó afar fátítt) (Þorsteinn G. Indriðason 1990:8).

 

Fyrstu tvö dæmin eru eftir Matthías Jochumsson:

 

Stórt hæfir slægum                            (Sjá Sig. Kr. Pétursson 1996:358)

 

Sturla kvað yfir styrjarhjarli,

Snorri sjálfur á feigðar-þorra.            (Sjá Sig. Kr. Pétursson 1996:358)

 

Stikaði djarft með stoltan svip

Snæfellingagoðinn                             (Alþingisrímur, sjá RIA 2004a:30).

 

Nú er hún Snorrabúð stekkur            (Jónas Hallgrímsson 1989:63)

 

Sníkjuhljóðsstuðlun er fullkomlega rökrétt og ekkert við hana að athuga enda notaði Jónas Hallgrímsson þessa stuðlun oft, sbr.:

 

... leið um snjóvgar slóðir

storðar og frost var orðið.                  (Jónas Hallgrímsson 1989:163)

 

Heimildir:

Hallgrímur Pétursson. 1996. Passíusálmar. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Reykjavík.

Jónas Hallgrímsson. 1989. Ljóð og laust mál. Svart á hvítu, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1990. Bögubókin. Iðnú, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004a. Frá Braga til Steins. Óprentuð MA-ritgerð frá Háskóla Íslands 2004.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004b. 101vísnaþáttur úr DV. Hólar, Akureyri.

Sigurður Kristófer Pétursson. 1996. Hrynjandi íslenskrar tungu. Ljósprentað eftir 1. útgáfu í Dögun ehf., Reykjavík.

Símon Dalaskáld. 1950. Ljóðmæli. Rímnafélagið, Reykjavík.

Snorri Sturluson. 1999. Edda: Háttatal. Edited by Anthony Faulkes.  Viking society for northern research. University College of London. First published by Clarendon Press in 1991.

Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. H.f. Leiftur, Reykjavík.

Þorsteinn G. Indriðason. 1990. Að stuðla við sníkjuhljóð. Mímir 29. árg. bls. 8–20.

 

 

Í námsritgerð RIA (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2004) var stuðst við eftirtalin rit:

Jónas Hallgrímsson. 1948. Ljóðmæli. Tómas Guðmundsson gaf út. Helgafell, Reykjavík.

Matthías Jochumsson. 1936. Ljóðmæli. Magnús Matthíasson, Reykjavík.

Steingrímur Thorsteinsson. Ljóðmæli. Prentsmiðjan Leiftur, Reykjavík.

Steinn Steinarr. 1964. Kvæðasafn og greinar. Helgafell, Reykjavík.