Þriðji pistill

Kveður - bragliðir

Í þessum pistli verður fyrst fjallað um kveður eða bragliði. Orðin bragliður og kveða merkja það sama. Þar er um að ræða eins konar taktbil. Braglínurnar skiptast í kveður eftir því hvernig áherslurnar liggja. Í íslensku leggjum við alltaf aðaláherslu á fyrsta atkvæði í hverju orði. Þetta verður til þess að ef við röðum saman tveggja atkvæða orðum lendir áherslan á öðru hverju atkvæði. Við þetta skapast taktur sem lengst af hefur kallast hrynjandi á íslensku.

Kveðurnar skiptast í hákveður og lágkveður. Hákveðan kemur fyrst, þá lágkveða, þá hákveða o.s.frv. Sterkari áhersla er á hákveðum en lágkveðum.

Oft gerist það að tvö eins atkvæðis orð standa í stað tveggja atkvæða orðsins og gerist þá það sama; áherslan lendir á fyrra orðinu. Við skulum líta á góða vísu eftir Rósberg G. Snædal:

 

Margur | gín við | fölskum | feng

frelsi | sínu | tapar.

Bölvað | svín úr | besta | dreng

brenni- | -vínið | skapar.

(Sjá Ragnar Inga Aðalsteinsson 2004a:119)

 

Strikin afmarka kveðurnar. Í 1. og 3. braglínu eru dæmi um kveður sem samanstanda af tveimur einsatkvæðisorðum. Annars er alls staðar eitt tveggja atkvæða orð í kveðunni.

Stundum sér höfundur sig tilneyddan að hafa þriggja atkvæða orð inn á milli hinna. Það þykir ekki til skaða ef hóf er á. Örn Arnarson orti:

 

Herðir | frost og | bylja-| -blök

ber mig | vetur | ráðum.

Ævi | mín er | vörn í | vök,

vökina | leggur | bráðum.

(Örn Arnarson 1942:76)

 

Í síðustu braglínunni er þríliður; vökina. Betra þykir að hafa slíka þríliði í fyrstu kveðunni.

Sumar vísur eru hins vegar alfarið byggðar á þríliðum. Skoðum vísu eftir Kristján frá Djúpalæk:

 

Þegar við | hugsjónir | leita ég | lags

og | langar að | punkta þær | hjá mér.

þá byrjar | helvítis | hringhendan | strax

að | hrönglast í | kjaftinum | á mér.

(Kristján frá Djúpalæk 1949:191)

 

Hér eru þrjú atkvæði í hverri kveðu nema í lokakveðunum. Í frumlínunum er eitt atkvæði í síðasta bragliðnum og tvö atkvæði eru í lokabraglið síðlínanna. Þetta kallast stýfðir liðir. Stýfðir liðir eru styttri en hinir bragliðirnir. Ef hver bragliður er tvö atkvæði verður stýfður liður í lok þeirrar línu að vera eitt atkvæði. Ef hver bragliður er þrjú atkvæði getur stýði liðurinn (stúfurinn) verið eitt atkvæði eða tvö eins og sést í vísunni hér að ofan.

Í byrjun 2. og 4. braglínu þessarar vísu eru forliðir. Það eru áherslulaus orð fremst í línum. Fjallað verður nánar um forliði og þríliði í 6. pistli.

 

Um ljóðstafi

Í 5. kafla Bögubókarinnar er fjallað um ljóðstafina. Ég ætla að birta hér til gamans og vonandi einhverjum til gagns stuttan kafla úr ritgerð minni frá árinu 2004 (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2004b) þar sem ég fjallaði um þróun stuðlasetningar í íslenskri ljóðlist frá upphafi. Hér er fyrst vitnað til Ólafs Þórðarsonar sem uppi var á 13. öld. Hann var bróðursonur Snorra Sturlusonar. Ólafur skrifaði gagnmerkt rit sem hann kallaði Málskrúðsfræði. Það fjallar um bragfræði og fleira því tengt:

Stuðlun

Í Málskrúðsfræði Ólafs Þórðarsonar (1927:69-70) standa þessi orð:

„Paranomeon er þat, ef mörg orð hafa einn upphafs-staf sem hér:

Sterkum stilli

styrjar væni.

Þessi figúra er mjök höfð í málssnildar-list, er rethorica heitir, ok er hon upphaf til kveðandi þeirar, er saman heldur nórænum skáldskap svá sem naglar halda skipi saman, er smiðr gerir ok ferr sundurlaust ella borð frá borði, svá heldr ok þessi figúra saman kveðandi í skáldskap með stöfum þeim, er stuðlar heita ok höfuðstafir.“

Þessi orð Ólafs mega heita einkennandi fyrir það viðhorf sem ríkt hefur meðal íslenskra manna gagnvart stuðlun í kveðskap gegnum aldirnar. Flestir voru á þeirri skoðun að án stuðla og höfuðstafa væri kvæðið eins og hús án burðargrindar.*

Stuðlun eða stuðlasetning heitir það þegar sama eða sams konar hljóð er endur­tekið í upphafi áhersluatkvæða, í íslenskum kveðskap oftast þrisvar sinnum. Þessi hljóð kallast í dag einu nafni ljóðstafir og skiptast í stuðla og höfuðstafi. Algengast er að stuðlasetning tengi saman tvær braglínur, sem hér verða kallaðar frumlína (sú fyrri) og síðlína (sú síðari). Stuðlarnir eru þá ýmist einn eða tveir í frumlínunni og einn höfuðstafur í síðlínunni.

 

Grösug hlíð, með gagn og prýði,

gleði bjó mér nóga;                          (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:11)

 

eða:        Njóti aldrs

ok auðsala

konungr ok jarl.

Þat er kvæðislok.                     (Snorri Sturluson 1999:39)

 

Nokkuð algengt er að braglínur séu sjálfstæðar um stuðlasetningu, þ.e. að þær tengist ekki annarri braglínu með höfuðstaf. Þær línur bera þá án undantekningar tvo (og aðeins tvo) stuðla en næsta lína ber aðra stuðla.

 

Hvað er það undra,

er ég úti sé?

Vofu voðalega.

Stígur hún fæti

á stein hrufóttan

og horfir á hölda kindir.      (Kristján Jónsson Fjallaskáld 1986:90)

 

Í þessu ljóði eru 3. og 6. braglína með tvo stuðla en án tengsla við höfuðstaf í næstu línu. Þar koma aðrir stuðlar. Þessi vísa er ort undir ljóðahætti þar sem þessi skipan á ljóðstöfum var föst og óumbreytanleg, þ.e. 3. og 6. braglína voru sér um stuðla. En stuðlasetning sem þessi kemur miklu víðar fyrir í íslenskum kveðskap en í ljóðahætti. Lítum á dæmi úr 7. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar (1996:53) , 14. erindi:

 

Enn finnur þú hér framar

frelsarans dæmið best.

Hörmungar hættusamar

á honum lágu mest.

Sitt traust þó setti hann

á Guðs föður gæsku ríka.

Gjörðu það, sál mín, líka

ef kross þig henda kann.

 

Í vísunni eru 5. og 8. lína  með stuðla en tengjast ekki annarri línu með höfuðstaf. Í þessu tilviki er 6. braglína frumlína og sú 7. síðlína. Leiða má rök að því að 5. og 8. lína séu frumlínur án síðlínu.

Einstaka dæmi eru um það að ljóðstafir tengi saman þrjár braglínur og séu þá alls fjórir. Slík dæmi eru þó afar fátíð. Hér verður litið á Passíusálm nr. 42., 7. erindi (sama rit 172):

 

Kraftaverk hrein kenndu þá grein

að Kristur Guðs sonur væri.

En kvölin hans sýndi til sanns

syndugs manns

sektir og gjöld hann bæri.

 

Í þriðju braglínu vísunnar eru stuðlar í orðunum sýndi/sanns, í fjórðu braglínu er höfuðstafurinn í orðinu syndugs, og í fimmtu línu er í rauninni annar höfuðstafur, í orðinu sektir. Sálmurinn er reyndar ekki allur stuðlaður á þennan máta. Erindin eru alls 16 og 11 þeirra eru stuðluð á þann hátt sem dæmið sýnir.

 

Heimildir:

Kristján Jónsson. 1986. Ljóðmæli. Matthías Viðar Sæmundsson sá um útgáfuna. Almenna bókafélagið, ljóðaklúbbur, Reykjavík.

Kristján frá Djúpalæk. 1949. Í gamni. Aldrei gleymist Austurland. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri, bls. 191.

Ólafur Þórðarson. 1927. Málhljóða- og málskrúðsrit. Grammatisk-retorisk afhandling udgiven af Finnur Jónsson. Bianco Lunos Bogtrykkeri, Kaupmannahöfn.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004a. (Tók saman). 101 vísnaþáttur úr DV og tveimur betur. Hólar, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004b. Frá Braga til Steins. Nokkrar athuganir á þróun stuðlasetningar í íslenskum kveðskap. Óprentuð MA-ritgerð við HÍ.

Snorri Sturluson. 1999. Edda: Háttatal. Edited by Anthony Faulkes.  Viking society for northern research. University College of London. First published by Clarendon Press in 1991.

Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. H.f. Leiftur, Reykjavík.

Örn Arnarson. 1942. Illgresi. Önnur útgáfa. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.



* Rétt er að það komi fram að hér er ýmist talað um stuðlun eða stuðlasetningu og er ekki gerður munur þar á. Þá er notað heitið ljóðstafir þegar rætt er um stuðla og höfuðstafi saman. Í þeim fræðiritum sem út hafa komið um bragfræði er þessi hugtakanotkun nokkuð á reiki og því þykir rétt að taka þetta hér fram svo að ekki verði um neinn misskilning að ræða.