Annar pistill

Rím

Í þessum pistli verður fjallað um rím. Um það væri hægt að segja ansi margt og er hætt við að pistillinn yrði æði langur áður en því efni væru gerð endanleg skil. Í 3. kafla Bögubókarinnar er minnst á einrím (karlrím), lönd/bönd, tvírím (kvenrím), reiður/leiður, og þrírím (veggjað rím), Haraldur/faraldur. Þar er líka talað um sniðrím þegar saman ríma orð án þess að stofnsérhljóðinn sé sá sami, t.d. vald/eld o.s.frv. Stundum er þetta sama fyrirbæri kallað hálfrím. Heitin á hugtökum í bragfræði eru svolítið á reiki. Mér finnst eðlilegra í þessu tilviki að nota þarna orðið sniðrím og kalla hálfrím þegar orð ríma saman án þess að stofnsérhljóðin séu eins, t.d. gull/fugl. En um þetta eru deildar meiningar eins og ýmislegt annað.

Ekki er ástæða til að skýra hugtökin karlrím og kvenrím. Þrírím eða veggjað rím er heldur sjaldgæft þó að um það finnist dæmi af og til:

 

Ei mun hraun og eggjagrjót

iljum sárum vægja.

Legg ég upp á Leggjabrjót,

langt er nú til bæja.                            (Örn Arnarson 1942:76)

 

Ég þekki eitt dæmi um fjórrím (ath. að orðið fjórrím er yfirleitt ekki notað í bragfræði, enda fyrirbærið nánast óþekkt. Sama á við um fimmrím hér á eftir):

 

Mér finnst harður vera vetur,

vondan niður frera setur,

góa mætti gera betur,

gleðja mig og Stera-Pétur.                (Hákon Aðalsteinsson 2010:49)

 

Og til eru dæmi um fimmrím þó að slíkt sé afar fátítt:

 

Það er skammgóður vermir hins skrifandi manns

að skreyta sig riddarakrossi

nema dagurinn byrji hjá blýanti hans

með brennandi yddarakossi.

(Þórarinn Eldjárn)

 

Flatrím heitir það þegar saman ríma endar þriggja atkvæða orða, t.d. nemandi/kennari. Hér er það aðeins síðasti stafurinn sem ber rímið uppi. Flatrím er aðeins hægt að nota í þriggja atkvæða orðum vegna þess að það sem heldur ríminu uppi er aukaáhersla sem að jafnaði lendir á 3. atkvæði hvers orðs.

 

Lífið manns er leiðindi,

lunti, böl og andstreymi,

allra mesti óþarfi

sem ekki svarar kostnaði.                   (Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri)

 

Víxlrím er það kallað þegar braglínurnar ríma saman á víxl, þ.e. 1. lína rímar við 3. línu og 2. við 4.

 

Hátt og kúpt er á þér enni,

ekki er þér um málið tregt.

En það þú sért mikilmenni

mér finnst það heldur ólíklegt. (Haraldur Hjálmarsson)

 

Í þessari vísu Haraldar er dæmi um víxlrím og endarím.

Runurím heitir það hins vegar þegar rímorðin standa í röð (runu) og braglínurnar ríma saman tvær og tvær (eða allar fjórar).

 

Geysilega er Guðni skýr,

glaður undan feldi snýr,

sagður elska sérhvert dýr,

sérstaklega norskar kýr.                     (Einar Ármannsson)

 

Endarím kallast það þegar orðin sem ríma standa í enda braglínanna eins og sýnt hefur verið hér að ofan.

Miðrím (líka kallað innrím) er það þegar orð ríma saman inni í vísunni, oftast þá í fyrra atkvæði í 2. kveðu. Vísa með þannig rími kallast hringhenda.

 

Miðla ég tári á mannfundi

manni náradregnum.

Þessi árans andskoti

ætlar að klára úr fleygnum.               (Rósberg G. Snædal)

 

Hér getur að líta miðrím og vísan er hringhenda. Auk þess er þarna dæmi um flatrím í 1. og 3. braglínu (mannfundi/andskoti).

Framrím er fremur sjaldgæft. Þá ríma saman áhersluatkvæði orðanna sem standa fremst í braglínunum.

 

Glæst er mynd af ljósum lokk

læst í huga mér.

Hæst þig bar í fljóðaflokk,

fæstar líktust þér.                               (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:14)

 

Athugið að þessi vísa er ekki hringhenda. Það heiti bera aðeins vísur sem hafa þetta samrím í fyrra áhersluatkvæði 2. kveðu (sjá vísu Rósbergs hér að ofan).

Stundum er kvenrímið (tvírímið) þannig að saman ríma tvö einsatkvæðisorð og þrírímið eitt eins atkvæðisorð og eitt tveggja atkvæða orð:

 

Hörð í slagnum hjá okkur

huguð lengi stóð hún.

Inn í hausinn á okkur

alls kyns visku tróð hún.                   (Falur)

 

Orð eru afar misgóð til að nota sem rímorð. Flettið upp í Rímorðabókinni og berið saman saman hve mörg orð ríma við orðið glóð annars vegar og orðið þjáfun hins vegar. Þetta verður að hafa í huga þegar valin eru rímorð. Löngum hafa hagyrðingar legið á því lúalagi að gera fyrriparta með ótækum rímorðum og skorað á menn að botna. Ekki veit ég höfundinn að þessum fyrriparti:

 

Heyrist glymja jaxl við jaxl

jórtrar kýr á bási.

 

Það var Hjálmar Freysteinsson sem botnaði:

 

Þú mátt hoppa upp á axl-

irnar mínar, Lási.

 

Hjálmari tókst að leysa rímþrautina en það er reyndar nokkuð á kostnað efnismeðferðarinnar. Þessi Lási á í rauninni lítið erindi inn í vísuna nema til að ríma við 2. braglínu, en því hlutverki þjónar hann reyndar ágætlega.

Við endum pistilinn á skemmtilegri vísu sem organistar á ferðalagi suður á Ítalíu gerðu fyrir nokkrum árum. Þar leysa þeir erfiða rímþraut (erfiðu rímorðin feitletruð):

 

Pastan finnst mér prýðisgóð

sé pantað með henni rauðvín.

Snæði ég svo að miklum móð

makkarónur og dauð svín.

 

Heimildir:

Hákon Aðalsteinsson. 2010. Fjallaþytur. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1996. Suttungur 1 og 2. Iðnú, Reykjavík.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2004. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auk. Fyrri hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Ragnar Inga Aðalsteinsson. 2005. 101 vísnaþáttur úr DV – og tveir að auki. Seinni hluti. Bókaútgáfan Hólar, Reykjavík.

Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. Leiftur hf., Reykjavík.

Örn Arnarson. 1942. Illgresi. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.

 

Flestar vísurnar sem hér birtast eru teknar úr Vísnaþáttunum 2004 eða 2005. Falur er persóna í Suttungi (RIA 1996).