Bragfræðikennsla í grunnskólum

Bragfræðikennsla í grunnskólum


Ragnar Ingi Aðalsteinsson

Þær reglur og hefðir sem liggja að baki vísnagerð á Íslandi í dag eiga sér langa sögu. Sú saga er reyndar eldri en elstu heimildir og fræðimenn hafa enn ekki getað gert sér neina verulega trúverðuga mynd af því hvaðan þessar reglur eru upprunnar eða hvers vegna þær urðu til. Sumir hafa þó reynt og má þar t.d. nefna að Jón Helgason, prófessor, (1959:13) vísar til fræðimanna sem hafa getið sér þess til að stuðlunin ætti uppruna sinn í ævafornum athöfnum Germana sem leituðu véfrétta eftir ákveðnum leiðum og Kristján Árnason, prófessor, (2003:13) telur líklegt að orðaáhersla í germönskum málum sé ákveðinn áhrifavaldur í þróun stuðlunar. Um þetta verður ekki fjölyrt hér. Svo mikið er víst að reglur um stuðlasetningu eru löngu gleymdar öllum þjóðum öðrum en Íslendingum. Um stuðlaðan kveðskap með öðrum germönskum þjóðum er það helst að segja að á seinni hluta 9. aldar hverfur stuðlasetning úr þýskum kvæðum. Á Norðurlöndunum utan Íslands er svo að sjá að stuðluð ljóð séu úr sögunni þegar kemur fram á 13. öld. Á Englandi hins vegar hélst hefðin við nokkru lengur. Síðasta stuðlaða kvæði í enskum bókmenntum er ort á síðari hluta 14. aldar. Það sem einkum varð hinum stuðlaða kveðskap að fjörtjóni voru áhrif frá bragarháttum sem voru án stuðla en höfðu endarím. Þetta endarím var upprunnið á 5. öld í ljóðagerð kirkjunnar og fylgdi henni norður eftir álfunni (Jón Helgason 1959:13–16).
En hvað sem líður uppruna hins hefðbundna brags þá er það staðreynd að Íslendingar hafa einir varðveitt þennan menningararf. Hjá okkur er enn verið að yrkja undir sömu reglum og tíðkuðust eitt sinn vítt um Norður-Evrópu og voru í fullu gildi við upphaf Íslands byggðar og stuðlasetningarreglur hafa nánast ekkert breyst. Það litla sem er þá hafa þær orðið heldur strangari og nákvæmari en þær voru á tímum Snorra Sturlusonar.
Það væri full ástæða til þess að Íslendingar væru verulega stoltir af þessari einstæðu menningarvarðveislu og leggðu rækt við þennan hluta arfsins í samræmi við það. Eitt af því sem óhjákvæmilega verður að gera ef ekki á að týna þessari einstæðu hefð er að kenna hana æskunni sem á að erfa landið, nemendum grunnskólans.

SAGA BRAGFRÆÐIKENNSLU Í GRUNNSKÓLUM – HELSTU KENNSLUBÆKUR
Saga bragfræðikennslu í grunnskólum á Íslandi er hvorki löng né litrík. Svo er að sjá að framan af 20. öld hafi verið gengið út frá því að allir kynnu reglur um stuðlun og rím. Helsta rit um bragfræði var lítið kver eftir Sveinbjörn Sigurjónsson (1971) sem hét Bragfræði handa miðskólum og gagnfræðaskólum og var alls 16 síður. Kverið er að vísu prýðilega gert sem slíkt en fyrir þá sem enga hefð eða þjálfun hafa í vísnagerð er það til lítils gagns. Það virðist miklu frekar vera skrifað til þess að skýra fyrir fólki þau hugtök sem það kunni fyrir en hafði ekki nöfn á. Þetta var það eina sem boðið var upp á til bragfræðikennslu allt fram til ársins 1986 þegar bók Indriða Gíslasonar, Málvísi 3, kom út. Þar er stuttur kafli um bragfræði. Árið 1987 kom svo út bók eftir þann sem hér situr við skjá. Hún nefndist Bragfræði og var gefin út af Námsgagnastofnun. Eftir það hafa komið út eftir mig eftirtaldar bækur um bragfræði eða tengdar því efni: Bögubókin 1990, Suttungur 1996, Ljóð í tíunda 1998, Hugtakarolla (ásamt Þórði Helgasyni) 2001 og Vísnaverkefni 2002.
Ekki liggur neitt fyrir um það hve mikið þessar bækur eru notaðar í grunnskólum landsins og þaðan af síður hver kynni að vera árangurinn af þeirri kennslu ef einhver er. Þó benda sölutölur Námsgagnastofnunar til þess að Bragfræði frá 1987 hafi notið nokkurra vinsælda meðal grunnskólakennara. Hún hefur farið út í skólana í nokkur þúsund eintökum. Það bendir til þess að í einhverjum skólum a.m.k. sé verið að kenna reglur um stuðlasetningu.
Auðvitað hafa verið skrifaðar fleiri bækur um bragfræði og má þar t.d. nefna ágæta bók Sveinbjarnar Beinteinssonar, Bragfræði og háttatal, sem út kom 1953. En sú bók er ekki sniðin fyrir grunnskóla enda alls ekki heppileg til kennslu þar þó að hún sé hentug í öðrum tilvikum.
SVOLÍTIÐ UM FORLAGATRÚ
Sennilega kemur það flestum á óvart hve bragregur þær, sem eru uppistaðan í hinum forna menningararfi, eru einfaldar. Yfir vísnagerðinni hefur löngum legið svolítil dulúð sem gjarnan er tengd við öfl af öðrum heimi, töfra eða galdur. Sú kenning hefur gengið manna á milli sem almenn staðreynd að hæfileikinn til að yrkja sé meðfædd gáfa, sumum gefin en öðrum ekki. Ég er ekki frá því að þessi villutrú hafi átt nokkurn þátt í því að margir hafa alið með sér þá skoðun að bragfræðikennsla sé óvinnandi verk. Þeir sem ekki hafi fengið hæfileikann í vöggugjöf geti þetta hvort eð er aldrei, hvernig sem farið sé að, og hinir heppnu þurfi ekki kennslu í þessu því að náðargáfan sé þarna fyrir og ekkert geti ógnað henni. Hér er um að ræða einhvern anga af forlagatrú sem hefur haft vond áhrif á framgang menningararfsins.
Sannleikurinn er auðvitað sá að allir þeir sem á annað borð hafa lært að lesa geta líka auðveldlega lært að gera vísur. Reglur þær sem vísnahefðin byggist á eru ekki flóknar heldur þvert á móti svo einfaldar að það kemur flestum á óvart eins og fyrr sagði. Til að geta gert vísu þarf fyrst og fremst að kunna tvær reglur um ljóðstafasetningu. Þær reglur má draga sama á eftirfarandi hátt: a) annar stuðull í 3. kveðu; b) höfuðstafur fremst. Hér á eftir verður skýrt hvað átt er við með þessum stuttu samandregnu reglum sem mynda á sinn einfalda hátt grunninn undir hina aldagömlu hefð og eru einn meginþáttur í hefðbundinni íslenskri ljóðagerð.

HRYNJANDI OG LÍNUSKIPTING
Til að kenna bragfræði í grunnskólum er mikilvægt að reyna eftir föngum að gera efnið einfalt. Vísan skiptist í braglínur, best að kalla þær bara línur.

Vorið | góða | grænt og | hlýtt

Línurnar skiptast í taktbil, sbr. þverstrikin. Takturinn byggist á áherslunum. Í íslensku leggjum við ávallt áherslu á fyrsta atkvæði í orði og þegar gert er eins og hér, að raða saman tveggja atkvæða orðum (Vorið - góða) og stinga þar inn á milli tveimur einsatkvæðisorðum (grænt - og) skapast taktföst hrynjandi sem börn og unglingar eiga gott með að tileinka sér. Síðasta orðið í línunni (hlýtt) er fyrri hluti af taktbili og í seinni hluta þess verður þögn, líkt og í tónlist. Ágæt leið er að klappa taktinn þegar vísan er lesin.
Það er þó rétt að taka fram að ekki er endilega æskilegt að útskýra öll þessi hugtök fyrir nemendum. Þeir læra að skynja taktinn og það er fyrir öllu til að byrja með.

Vorið | góða, | grænt og | hlýtt,
græðir | fjör um | dalinn.
Allt er | nú sem | orðið | nýtt,
ærnar, | kýr og | smalinn. (Jónas Hallgrímsson 1948:236)

Mikilvægt er að æfa nemendur vel í því að skipta vísum í taktbil. Taktbilin sem þarna eru afmörkuð með þverstrikunum heita kveður eða bragliðir.
Það sem við skoðum næst er að stuðlasetningin tengir oftast saman tvær línur. Sú fyrri kallast frumlína en sú seinni síðlína. Þessi hugtök þarf að kenna nemendum til að betur gangi að útskýra stuðlasetningarreglurnar.

Fljúga hvítu fiðrildin — frumlína
fyrir utan glugga. — síðlína
Þarna siglir einhver inn — frumlína
ofurlítil dugga. — síðlína (Sveinbjörn Egilsson, sjá Indriða Gíslason 1986:87)

Stuðlasetningarreglurnar byggjast á kveðuskiptingunni (þ.e. taktinum eða hrynjandinni), lengd braglínanna og braglínuskiptingunni. Áður en lengra er haldið er rétt að huga að helstu reglum um stuðlasetningu.

STUÐLUN Í ÍSLENSKUM BRAG
Stuðlun eða stuðlasetning heitir það þegar sama eða sams konar hljóð er endurtekið í upphafi áhersluatkvæða, í íslenskum kveðskap oftast þrisvar sinnum. Þessi hljóð kallast í dag einu nafni ljóðstafir og skiptast í stuðla og höfuðstafi. Algengast er að stuðlasetning tengi saman tvær braglínur, frumlínu og síðlínu. Stuðlarnir eru þá ýmist einn eða tveir í frumlínunni og einn höfuðstafur í síðlínunni.

Grösug hlíð, með gagn og prýði,
gleði bjó mér nóga; (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:11)
eða:

Njóti aldrs
ok auðsala
konungr ok jarl.
Þat er kvæðislok. (Snorri Sturluson 1999:39)

Til að frumlínan geti komist af með einn stuðul verður hún að vera stutt, ekki lengri en tvær kveður. Oft er talað um ris í staðinn fyrir kveður í þessum stuttu braglínum því að kveðuskiptingin er óreglulegri en við þekkjum í lengri línunum. Í grunnskólabragfræðinni notum við yfirleitt ekki þessar stuttu línur heldur höldum okkur við fastari og afmarkaðri takt en þar tíðkast.
Nokkuð algengt er að braglínur séu sjálfstæðar um stuðlasetningu, þ.e. að þær tengist ekki annarri braglínu með höfuðstaf. Þær línur bera þá án undantekningar tvo (og aðeins tvo) stuðla en næsta lína ber aðra stuðla.

Hvað er það undra,
er ég úti sé?
Vofu voðalega.
Stígur hún fæti
á stein hrufóttan
og horfir á hölda kindir. (Kristján Jónsson Fjallaskáld 1986:90)

Í þessu ljóði eru 3. og 6. braglína með tvo stuðla en án tengsla við höfuðstaf í næstu línu. Þar koma aðrir stuðlar. Þessi vísa er ort undir ljóðahætti þar sem þessi skipan á ljóðstöfum var föst og óumbreytanleg, þ.e. 3. og 6. braglína voru sér um stuðla. En stuðlasetning sem þessi kemur miklu víðar fyrir í íslenskum kveðskap en í ljóðahætti. Lítum á dæmi úr 7. Passíusálmi Hallgríms Péturssonar (1996:53) , 14. erindi:

Enn finnur þú hér framar
frelsarans dæmið best.
Hörmungar hættusamar
á honum lágu mest.
Sitt traust þó setti hann
á Guðs föður gæsku ríka.
Gjörðu það, sál mín, líka
ef kross þig henda kann.

Í vísunni eru 5. og 8. lína með stuðla en tengjast ekki annarri línu gegnum höfuðstaf. Í þessu tilviki er 6. braglína frumlína og sú 7. síðlína. Leiða má rök að því að 5. og 8. lína séu frumlínur án síðlínu.
Ekki er ætlast til þess að nemendur grunnskólans læri allar þær reglur sem hér eru settar fram, a.m.k. ekki til að byrja með. Hins vegar er betra fyrir kennarann að hafa ákveðna grunnþekkingu á stuðlasetningarreglunum til að geta svarað spurningum ef einhvern langar til að vita meira en það sem krafan er gerð um.

HVAÐ STUÐLAR VIÐ HVAÐ?
Samhljóð stuðla aðeins hvert við annað, sbr. þennan vísuhelming, þar er g ljóðstafur:

Vorið góða grænt og hlýtt
græðir fjör um dalinn

Hljóðið s hefur þá sérstöðu í stuðlun að þar verður að taka tillit til þess hvaða hljóð fer næst á eftir s-inu. Hljóðaklasarnir sk, sl, sm, sn, sp og st eru sérstakir ljóðstafir og stuðla aðeins hver við annan, sjá t.d. þennan vísuhluta þar sem stuðlað er með sn:

snjallur hljómur snemma vekur
snork og lúr í burtu tekur. (Eggert Ólafsson 1953:20)

Sérhljóðin stuðla hvert við annað. Ef sérhljóð mynda ljóðstafi mega það vera hvaða sérhljóð sem er, sbr. t.d. vísuhlutann:

Allt er nú sem orðið nýtt
ærnar, kýr og smalinn.

Hér eru það sérhljóðarnir a (Allt), o (orðið) og æ (ærnar) sem mynda ljóðstafina.


ANNAR STUÐULLINN ER Í 3. KVEÐU, HÖFUÐSTAFUR FREMST
Nú er rétt að skoða aftur vísu Jónasar Hallgrímssonar:

Vorið | góða | grænt og | hlýtt
græðir | fjör um | dalinn.
Allt er | nú sem | orðið | nýtt
ærnar | kýr og | smalinn.

Þegar vísan er skoðuð kemur í ljós að í fyrri helmingi hennar eru stuðlarnir í 2. og 3. kveðu, í seinni hlutanum eru þeir í 1. og 3. kveðu. Lítum aftur á vísu Sveinbjarnar Egilssonar:

Fljúga | hvítu | fiðrild- | -in
fyrir | utan | glugga.
Þarna | siglir | einhver | inn
ofur- | -lítil | dugga.

Hér eru stuðlarnir í 1. og 3. kveðu í fyrstu línunni en í 3. og 4. kveðu í þriðju línu.
Í öllum frumlínunum í þessum vísum eru tveir stuðlar og í öllum tilvikum stendur annar þeirra í kveðu númer 3. Það er önnur grunnreglan sem sett var fram hér að ofan. Og þá er að huga að hinni reglunni. Í báðum þessum vísum má finna höfuðstafinn fremst í síðlínunum (g í græðir, æ í ærnar, f í fyrir, o í ofur-).
Þessi regla, um annan stuðulinn í 3. kveðu, á við þegar línan er fjórar kveður (eða fimm). Langalgengasta form á vísum er á þann máta að frumlínurnar séu fjórar kveður. Allar vísur undir svokölluðum rímnaháttum eru þannig. Ef línan er þrjár kveður mega stuðlar standa í hvaða kveðum sem er og ef hún er tvær kveður þarf, eins og fyrr kom fram, aðeins einn stuðul.
Höfuðstafurinn stendur í fyrsta áhersluatkvæði í síðlínunni. Stundum getur verið áherslulétt orð fyrir framan hann. Það kallast forliður og truflar ekki stuðlunina. Dæmi:

Skelfin er skelfingin erfið
hún skyrpist og pumpast. (Þórarinn Eldjárn, sjá Indriða Gíslason 1986:98)

Hér eru ljóðstafir sk. Orðið hún fremst í síðlínunni er áherslulétt. Það er því forliður og höfuðstafurinn, sk í skyrpist, er í fyrsta áhersluatkvæðinu.

AÐ KENNA BRAGFRÆÐI
Til að kenna börnum og unglingum undirstöðuatriði bragfræðinnar er best að nota vísur sem settar eru saman úr sundurlausum orðum. Benda má á Vísnaverkefni sem nefnd voru hér að ofan. Þar eru 40 vísur sem gerðar eru á þennan hátt og orðunum svo ruglað. Nemendur eiga svo að spreyta sig á að raða þeim aftur saman þannig að úr verði rétt gerð vísa. Skoðum dæmi (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2002:18):

hrófla, buska, grufla, skara, róta, gá, gramsa, raska, tæta, káfa, ná, ringla, hræra, snáfa.

Best er að byrja á að finna rímorðin og setja þau á réttan stað í enda braglínanna:

                          | gá
               | káfa
                          | ná
               | snáfa

Næst er að finna orðin sem bera ljóðstafina og setja þau á rétta staði. Gæta verður þess að annar stuðull sé í 3. kveðu og höfuðstafur fremst. Í fyrri frumlínunni er annar stuðullinn þegar kominn þar sem er rímorðið gá. Hinn kemur þá á sinn stað í 3. kveðu. Í seinni frumlínunni kemur annað r-ið í 3. kveðu en hitt má vera hvort sem er í 1. eða 2. kveðu. Höfuðstafirnir koma fremst í síðlínurnar:

                                    | grufla | gá
gramsa |                   | káfa 
róta        |                    | raska | ná
ringla     |                    | snáfa

Þá er ekki annað eftir en að raða inn orðunum sem eftir eru:

hrófla | buska | grufla | gá
gramsa | tæta | káfa
róta | skara | raska | ná
ringla | hræra | snáfa

Þessi vísa er svo sannarlega ekki neitt bókmenntaafrek en hún er rétt gerð út frá bragfræðilegu sjónarmiði og það er aðalatriðið. Seinna, þegar nemendur hafa náð góðum tökum á þessum grundvallarreglum, er hægt að láta þá fara að fást við að yrkja sínar eigin vísur.

LOKAORÐ
Til að læra að gera vísu rétt eftir fornum bragreglum þarf ekki meiri kunnáttu en þá sem hér er sett fram. Grunnreglur rímnaháttanna, um annan stuðul í 3. kveðu og höfuðstafinn fremst, eru afar einfaldar og þær getur hver sem er tileinkað sér. Auðvitað er hægt að læra miklu meira um bragfræði en þessar tvær reglur. Til eru fjölmargir misflóknir bragarhættir, rím getur orðið að ótrúlegum gestaþrautum ef út í það er farið og svo mætti lengi telja. En grunnreglurnar tvær eru samt sem áður aðalatriðið í allri þessari bragfræði. Þær eru undirstaðan sem allt annað hvílir á. Sá sem kann þær vel getur í það minnsta auðveldlega séð hvort vísa er rétt gerð eða ekki og það er í mínum huga það mikilvægasta í kennslunni. Það er með öllu óviðunandi að fólk geti komist gegnum allt skólakerfið án þess að læra nokkurn tíma svo mikið um þennan merkilega menningararf okkar að það sjái hvort reglurnar eru þverbrotnar þegar vísan er gerð.
Og svo eru alltaf einhverjir sem reyna fyrir sér í vísnagerð, með misjöfnum árangri eins og gengur. Því má ekki gleyma að sumir verða alltaf betri en aðrir í þessu eins og öllu öðru. En þó að snjallir hagyrðingar hafi sett fram ódauðleg listaverk í formi einfaldrar ferskeytlu er óþarfi fyrir okkur hin að leggja árar í bát. Það væri líkt því ef menn vildu hætta að spila körfubolta eftir að horfa á einn leik með Michael Jordan.
Og braghefðin, þessar dularfullu reglur sem enginn veit hvaðan eru komnar en eru svo samofnar allri íslenskri ljóðagerð allt fram á miðja 20. öld og eru enn í fullu gildi, þessi forni arfur aftan úr myrkviðum fortíðarinnar, arfurinn sem hefur varðveist hér í íslensku umhverfi meðan allir aðrir týndu honum, hann er líka nokkurs virði í sjálfu sér. Við skulum ekki verða sú kynslóð sem glutrar honum niður.

HEIMILDIR
Eggert Ólafsson. 1953. Kvæði. Vilhjálmur Þ. Gíslason gaf út. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
Hallgrímur Pétursson. 1996. Passíusálmar. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Reykjavík.
Indriði Gíslason. 1986. Málvísi 3. Námsgagnastofnun, Reykjavík.
Jón Helgason. 1959. „Að yrkja á íslensku“. Ritgerðarkorn og ræðustúfar. Félag íslenskra stúdenta í Kaupmannahöfn, Reykjavík.
Jónas Hallgrímsson. 1948. Ljóðmæli. Tómas Guðmundsson gaf út. Helgafell, Reykjavík.
Kristján Árnason. 2003. „Um bragfræði“. [14. kafli úr óprentuðu handriti (Handbók um íslenskt hljóðafar), lagður fram í námskeiðinu Íslensk hljóðkerfisfræði við Heimspekideild H.Í. haustið 2003.]
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 1987 Bragfræði [kennslubók fyrir grunnskóla]. Námsgagnastofnun, Reykjavík.
___. 1990 Bögubókin [kennslubók fyrir framhaldsskóla]. Iðnú-bókaútgáfa, Reykjavík.
___. 1991 Bögubósi [fylgirit með Bögubókinni]. Iðnú-bókaútgáfa, Reykjavík.
___. 1996 Suttungur I og II [kennslubók í bragfræði ásamt ítarefnishefti og kennsluleiðbeiningum]. Iðnú-bókaútgáfa, Reykjavík.
___. 1998 Ljóð í tíunda [kennslubók í bragfræði og ljóðlist fyrir grunnskóla]. Iðnú-bókaútgáfa, Reykjavík.
___. 2002 Vísnaverkefni [æfingahefti fyrir bragfræði]. Hólar, Reykjavík.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson og Þórður Helgason. 2001. Hugtakarolla [kennslubók fyrir 10. bekk grunnskóla]. Útg. Ragnar Ingi Aðalsteinsson, Reykjavík.
Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. H.f. Leiftur, Reykjavík.
Sveinbjörn Sigurjónsson. 1971. Bragfræði handa miðskólum og gagnfræðaskólum. Sjöunda útgáfa. Offsetmyndir sf., Reykjavík.

Hrafnaþing 1, 2004, bls. 86-95