C V C (um rím)

 

Í The New Princeton Encyclopedia of Poetry and Poetics segir m.a. um rím „In the specific sense of the term as used in English, rhyme is the linkage in poetry of two syllables at line end ... which have identical medial vowels and final consonants but differ in initial consonant(s) - syllables which, in short, begin differently and end alike“ (Preminger og Brogan 1993:1053).

En rím getur birst á ýmsa vegu. Í sama riti má lesa eftirfarandi:

 
1. CVC       bad boy          (alliteration)
2. CVC       back rat          (assonance)
3. CVC       back neck      (consonance)
4. CVC       back bat         (reverse rhyme)
5. CVC       back buck      (frame rhyme, pararhyme)
6. CVC       back rack       (rhyme strictly speaking)
7. CVC       bat bat           (rich rhyme, or identical rhyme – bat = wooden
                                                   cylender/bat =flying creature)
           (The New Princeton Encyclopedia of Poetry and Poetics bls. 1054)

Hér stendur C fyrir consonant (samhljóða) og V fyrir vowel (sérhljóða). Undirstrikað er hverju sinni það sem tekur þátt í ríminu.
 
1. CVC    Það sem hér er á ferðinni er auðvitað það sem við köllum stuðlun rétt eins og segir í enska textanum; alliteration. Stuðlasetning er í rauninni rím, sbr. orðið stavrim sem notað er á Norðurlöndunum og þýska orðið Stabreim. Oftast er stuðlunin aðeins á einum samhljóða en þegar um gnýstuðla er að ræða fara tveir samhljóðar ætíð saman:
 
Hausa, fletja, slíta slóg,
sleddu hvetja, ausa sjó,
fast að setja, fíra kló,
fella net og splæsa tó.                                  (Örn Arnarson 1942:158)
 
Í fyrri helmingi vísunnar er það klasinn sl sem myndar stuðlunina en í seinni helmingnum eru ljóðstafirnir aðeins f. Rétt er að benda á að auðvitað geta þessir framstöðuklasar verið ólíkir að því leyti að stundum fylgja fleiri samhljóð en það sem myndar stuðlunina, sjá hér á eftir:
 
Fagnað magnar fríð á hlíð
frjó og gróin jörðin;
gagn og hagnað býður blíð,
bjó þar róleg hjörðin.                                    (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:2)
 
Framstöðuklasarnir sem stuðla eru ffrfrj annars vegar og bblbj hins vegar. Það sem stuðlar er í þessum tilvikum aðeins fyrsta hljóðið, þ.e. f og b. Það sem á eftir kemur er valfrjálst. Eina undantekning frá þessu eru gnýstuðlarnir: skslsm - snspst.
 
2. CVC    Þetta hefur verið kallað hálfrím á íslensku, líka sérhljóðarím. Þetta rím var stundum notað í danskvæðum á miðöldum, sbr. þessa vísu úr Tristanskvæði:
 
En því svaraði kóngurinn
og brást við reiður:
Hvað mun þurfa að græða hann,
því hann er feigur.                              (Páll Eggert Ólason 1947:81)
 
Sérhljóðarím varð aldrei verulega vinsælt, hvorki í veraldlegum kveðskap, sálmum eða rímum. Þó má sjá því bregða fyrir í dag í dægurlagatextum.
 
3. CVC    Þetta er kallað sniðrím (stundum líka kallað hálfrím, notkun þessara orða er nokkuð á reiki) og er algengt í fornum kveðskap. Bæði í dróttkvæðum og hrynhendum hætti var reglan sú að rím eins og þetta átti að vera í öllum frumlínum (skothendingar) og svo alrím (sjá síðar) í síðlínum:
 
þél höggr stórt fyr stáli          þél – stál         (Egill Skalla-Grímsson 1967:54)
 
senn verandi úti og inni         senn – inn       (Eysteinn Ásgrímsson 1967:363)
 
4. CVC    Þessi tegund ríms, eða öllu heldur stuðlasetningar, er ekki þekkt í íslenskum kveðskap. Engin hefð er fyrir því hér hjá okkur að hafa sama stofnsérhljóða á eftir hljóðinu sem stuðlar. Þetta er hins vegar alþekkt t.d. í Kalevala kvæðunum. Þar má sjá eftirfarandi:
 

Lappalainen laiha poika    (Kiparsky 1968:139)

(Hjörtur Pálsson þýddi fyrir mig þessa ljóðlínu, þannig: Langt að kominn kappi og grannur)

Reyndar er það svo að í Kalevalakvæðunum er þrisvar sinnum algengara að sjá þessa stuðlun heldur en þar sem sérhljóðinn er ekki sá sami. Stuðlun af þessu tagi er einnig algeng í kveðskap bæði í Mongólíu og Sómalíu svo nefnd séu þekkt dæmi.
 
5. CVC    Hér er aftur á ferðinni sniðrím, alþekkt í fornum kveðskap okkar og notað enn í dag. Munurinn á þessu og því sem sýnt er í nr. 3 er að nú er upphafssamhljóðinn sá sami. Lítum aftur á vísu Egils:
 
Gestils álft með gustum        gest - gust                  (Egill Skalla-Grímsson 1967:54)
 
Nú stuðla rímorðin sem er fyllilega eðlilegt og sjálfsagt ef svo ber undir. Þetta má í íslenskum kveðskap en hefur ekki neina sérstaka þýðingu. Þessi tegund ríms hefur enda ekkert heiti annað en það er einfaldlega kallað sniðrím, eins og dæmið þél/stál hér að framan..
 
6. CVC    Nú komum við loks að því sem í daglegu tali er kallað rím á Íslandi. Hér er stofnsérhljóðið það sama svo og samhljóðinn sem fer næst á eftir því. Þetta kallast alrím:
 
Glæst er mynd af ljósum lokk          lokk - flokk
læst í huga mér.                                 mér - þér
Hæst þig ber í fljóða flokk
fæstar líktust þér.                                           (Sveinbjörn Beinteinsson 1953:14)
 
Í þessari vísu er framrím, sem er óvenjulegt. Orðin sem ríma eru:
Glæst – læst – Hæst – fæst-
 
7. CVC    Ýmis skemmtileg dæmi eru til um þetta rím í íslensku þó að við höfum reyndar ekkert heiti um það, a.m.k. ekki sem mér er kunnugt um. Nú rímar allt saman, fyrri og seinni samhljóði og sérhljóðinn. Lítum á vísu (hringhendu) þar sem innrímið (miðrímið) er á þessa lund en merking orðanna breytist frá einni línu til annarrar:
 
Kveð ég hátt uns dagur dvín             (hátt = háum rómi, um hljóð)
dýran hátt við baugalín;                     (hátt = bragarhátt)
Venus hátt í vestri skín,                     (hátt = í mikilli hæð)
við skulum hátta elskan mín.           (hátt(a) = afklæðast)

                                                                                               (Örn Arnarson 1942:177)


Heimildir:
Egill Skalla-Grímsson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.
Eysteinn Ásgrímsson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A II. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.
Kiparsky, Paul. 1968. Metrics and morphophonemics in the Kalevala, í Charles E. Gribble (ritstj.), Studies presented to professor Roman Jakobson by his students. Slavica Publishers, Inc. Cambridge, 137-148.
Páll Eggert Ólason. 1947. Íslands þúsund ár. Kvæðasafn. Helgafell, Reykjavík.
Preminger, Alex, og T.V.F. Brogan. 1993. The New Princeton Encyclopedia of Poetry and Poetics. Princeton University Press, Princeton, New Jersay.
Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. H.f. Leiftur, Reykjavík.
Örn Arnarson. 1942. Illgresi. Önnur útgáfa. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Reykjavík.