Háttatal - fornhættir

 

Dróttkvætt
Frísk og ólm er æskan
ör og hreif af fjöri.
Treður lífs um leiðir
létt á fótum nettum.
Út hún ákaft leitar
undir kvöldið stundum;
kvik og vösk þá vakir
villt í dansi trylltum

Munnvörp
Illt er um að ganga,
úti frostið bítur.
Vetur hefur völdin,
vindar svalir anda.
Hart er húfuleysið,
hvít er stétt og gata.
Verður köppum kátum
kalt á þessu rölti.

Háttlausa
Gustar gegnum flíkur,
gallinn skýlir illa.
Næðir kul um kroppinn;
kalt á tám og fingrum.
Frelsi þó ég fagna,
fer nú sem mig lystir.
Geng um götur hálar
glaður vel þótt blási.

Hrynhenda
Marga gleðilífið laðar
læti verða títt um nætur.
Hópast fólk á hverja knæpu,
hér er víða margt að gerast.
Fylla götur þras og þrætur
þrjótar grimmir pústrum hóta;
ungur nemi öls í vímu
orgar hátt á miðju torgi.
   
Fornyrðislag
Víst er gaman
að ganga um stræti;
horfa á hamslausa
helgargleði.
Nokkuð dýrkeypt
mun þó nóttin verða
ef kem ég heim
kalinn á eyrum.

Málaháttur
Háð var hörð rimma;
einn sem hart barðist
undan snöggu höggi
féll í snjótraðkið.
Sár var brún bólgin
brostinn augnsvipur;
taumar blóðs léku
um tættar skjólflíkur.

Kviðuháttur
Mætti mér
mikill háski,
hrotti hár
hnefa steytti.
Færðist nær
fóli þessi;
rann ég brott
röskum fótum.

Runhenda
Hér við glaum og gleði
gálaus kæti réði;
sumir jafnvel sukku
sollinn í og drukku.
Einn þá öðrum týnir,
einnig vinir mínir
eru frá mér farnir;
fátt um skjól og varnir.

Runhenda
Ást heltók einn,
burt fór ötull sveinn;
fylgdi snót heim
veit ég fátt af þeim.
Annar afrek vann,
greip æði þann.
Nú gistir hann
gráan steinrann.
   
Ljóðaháttur
Sefur borgin,
sól er að rísa.
Liðin er langþráð nótt.
Ómilt kul
fer um auð stræti.
Mál er að halda heim.
   
Galdralag
Sá ég veltast
sá grunns kenna
sá brotna fagnaðs far.
Bratt rís aldan
bratt fellur aldan,
og sundrast við gljúpan sand
og sundrast við kvikan sand.