Háttatal - rímnahættir

Ferskeytla
Stráum vaggar vindurinn
veðurguðir fagna.
Úti bíður bíllinn minn
bestur allra vagna.

Ferskeytla - hringhend
Léttur vindur strýkur strá
streymir lind um hjalla.
Fögur sindrar sólin á
svörtum tindum fjalla.

Ferskeytla - sléttubönd
Slétta, frjóa grundin grær
glaðan söngur hljómar.
Netta laufið bærir blær
blíður dagur ljómar.

Draghenda
Friðurinn við flóann kalda
finnst mér engu líkur.
Síðla dags ég helst vil halda
heim til Reykjavíkur.

Stefjahrun
Ökuþrá sem innra býr
enga þolir töf.
Ég fer af stað í fyrsta gír
með fót á bensíngjöf.

Skammhenda
Aftur get ég aukið hraðann
afl í vélum býr.
Söngva mína syng ég glaðan
set í annan gír.

Úrkast
Eins og trekkt af trylltri kæti
titra nöfin.
Býður upp á bölvuð læti
bensíngjöfin.

Dverghenda
Kraft og hraða finn ég feginn
fæ þó skrekk
svört og heit er sópa veginn
sumardekk.

Gagaraljóð
Þýt ég fram í þriðja gír
þrymur vélin, gef ég inn.
Þú ert alltaf eins og nýr
yndislegi bíllinn minn.

Langhenda
Fæti niður stoltur stíg ég
stynur vagninn undan því.
Tækninnar í faðmi flýg ég
fjórða gírinn set ég í.

Nýhenda
Æst og tryllt ég átök finn
ólgar kraftur bensíngandsins.
Alltaf gleður anda minn
ökuferð um sveitir landsins.

Breiðhenda
Ég á bensínjó vil þeysa
ég er alltaf til í slaginn.
Læt ég mótorgamminn geisa
gegnum bjartan sumardaginn.

Stafhenda
Þögull fram ég þýt um veg
þessi ferð er dásamleg.
Krómi slegin kerran dýr
komin er í fimmta gír.

Samhenda

Það vill gleymast, því er ver,
þegar mig um sveitir ber,
að nokkur hámarkshraði er
hvar sem ég á vegum fer.

Stikluvik
Nú má dóna svartan sjá
sveifla vasaljósi.
Skjannahvíta hefur sá
húfu sínum kolli á.

Valstýft
Fólar eru argir hér
sem ógna mér.
Frá þeim her í flýti ber
að forða sér.

Braghenda
Eftir loforð ærið stór ég ek í bæinn.
Hægt ég keyri harla feginn
horfi glaður fram á veginn.

Valhenda
Út við flóann bláa býður borgin mín.
Þegar fagur dagur dvín
dragast flestir heim til sín.

Stuðlafall
Undir kvöld ég kem til Reykjavíkur.
Mikið eru mjúkar þar
malbikuðu göturnar.

Vikhenda
Þreyttur ekur einn að húsi sínu.
Lýkur brátt í Fannafold
ferðalagi mínu.

Afhenda
Þegar sólin sest er eins og sjórinn logi.
Þá er gott í Grafarvogi.

Stúfhenda
Vængjuð fljúgi vísan mín um vík og dal.
Hér skal enda háttatal.