Ljóðstafurinn s

Gnýstuðlar

Frá fyrstu tíð hafa klasarnir sk, sp og st aðeins stuðlað innbyrðis en ekki hver við annan eða við önnur s-pör. Það sama mun eiga við um klasann sm (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2004:52-54 og 2005:67-83). Þetta kallast gnýstuðlar (sjá m.a. Sveinbjörn Beinteinsson 1953:xviii og Sigurð Kristófer Pétursson 1996[1924]:358). Í Leirkarlsvísum Hallgríms Péturssonar eru þessar línur:

Skyldir erum við skeggkarl tveir,
skammt mun ætt að velja,            (Páll Eggert Ólason 1947:77)

Hér stuðla saman sk, sk og sk eins og reglan segir að gnýstuðlar eigi að vera. Og Stefán Ólafsson orti:
...
en hver er sá, sem staupin stór
staðfyllt upp með skúm og bjór ...        (Páll Eggert Ólason 1947:122)

Hér eru ljóðstafirnir líka gnýstuðlar, st, st og st. Stuðlun með sp má sjá í kvæði eftir Kristján frá Djúpalæk:

Og spurt er um byggðir að spjöll vinni þeir.
Í spor slíkra drengja ...            (Kristján frá Djúpalæk 2007:288)

Og í vísu eftir Sighvat Þórðarson, sem uppi var á 11. öld, má lesa eftirfarandi:

frettic smás þo at smæstir
smugul er astar fuglar                (Sighvatur Þórðarson 1967 I:273)

Hér er stuðlað með sm.

s-stuðlun

Í elsta kveðskap Íslendinga stuðluðu framstöðuklasarnir sl og sn hins vegar hvor við annan og auk þess við sv, sj og s+sérhljóð. Það kallast s-stuðlun. Um þetta má sjá fjöldamörg dæmi. Sagnaritarinn Sturla Þórðarson orti svo:

Syngja létu snarpir drengir
soknar  gífr ifleina drífu.                (Sturla Þórðarson 1967:104)        

Hér eru stuðlar sy og sn og höfuðstafurinn so (í rauninni er það aðeins s-ið sem stuðlar). Snorri Sturluson yrkir í Háttatali sínu:

Slóð kann sneiðir
seima geima.                    (Snorri Sturluson 1999:30)        

Hér eru stuðlarnir sl og sn og höfuðstafurinn sei. Þetta er dæmigerð s-stuðlun. Hér mynda klasarnir sl og sn einn jafngildisflokk með klösunum sv, sj og s+sérhljóði.
S-stuðlun hvarf  með öllu úr kveðskapnum um eða rétt fyrir 1400. Á 18. og 19. öld tóku nokkur skáld þessa stuðlunarvenju upp aftur, líklega til að líkja eftir stuðlun fornskáldanna. Aðeins varð vart við s-stuðlun í byrjun 20. aldar en eftir það hvarf hún með öllu.

Gnýstuðlarnir sl og sn

Breytingin sem varð á stuðluninni, að líkindum um eða rétt fyrir 1400, fólst í því að framstöðuklasarnir sl og sn hættu að stuðla við sj, sv og s+sérhljóða. Eftir þá breytingu stuðlaði sl aðeins við sl og sn við sn. Jón Arason yrkir svo:

Þessa hef ég snöruna snarpa
snúið að fótum mér.                (Páll Eggert Ólason. 1947:149)

Og Hallgrímur Pétursson segir í sálminum Um dauðans óvissan tíma:

... slyngum þeim sláttumanni
er slær allt hvað fyrir er.                (Hallgrímur Pétursson 1996:202)

Þetta þýðir að klasarnir sl og sn urðu gnýstuðlar, eins og sk, sp, st og (að öllum líkindum) sm höfðu verið frá upphafi. Ástæðan fyrir þessari breytingu var sú að inn á milli framstöðuhljóðanna sem um ræðir (sl og sn) tróð sér sníkjuhljóð sem breytti framburðinum. Inn á milli s og l annars vegar og s og n hins vegar varð til lokhljóð, eins konar d-innskot, sem gerði það að verkum að eftir það hljóma nefndir klasar líkt og stl/stn. Svipað gerðist með klasann sm; inn á milli s og m varð til lokhljóð, eins konar b-innskot, sem orsakar það að klasinn hljómar eftir það líkt og spm enda eru dæmi til um að sm stuðli við sp.

Sníkjuhljóðsstuðlun

Lengi hefur, sem kunnugt er, tíðkast að stuðla saman sl, sn og st. Þetta er mögulegt vegna sníkjuhljóðsins [t] sem heyrist inn á milli s og l/s og n. Kallast þessi stuðlunarvenja í samræmi við það sníkjuhljóðsstuðlun. Sníkjuhljóðsstuðlun sést fyrst í kveðskap á 15.-16. öld en varð ekki algeng fyrr en á 19. öld, t.d. í ljóðum Gríms Thomsens og Jónasar Hallgrímssonar, sbr. þessar ljóðlínur Jónasar:
...
leið um snjóvgar slóðir
storðar og frost var orðið.      (Jónas Hallgrímsson 1989:163)

Sníkjuhljóðsstuðlun kemur fyrir í kveðskap margra skálda á 19. og 20. öld og þykir bragvönu fólki yfirleitt ekkert athugavert við það. Eyrað nemur t-hljóðið á eftir s-inu og klasinn hljómar „rétt“ í eyrum þess sem hlustar.

Heimildir:
Hallgrímur Pétursson. 1996. Passíusálmar. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Reykjavík.
Jónas Hallgrímsson. 1989. Ljóð og lausamál I. Svart á hvítu, Reykjavík.
Páll Eggert Ólason (tók saman). 1947. Íslands þúsund ár, 1300-1800. Helgafell, Reykjavík.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2004. Frá Braga til Steins. Nokkrar athuganir á stuðlasetningu í íslenskum kveðskap. Óprentuð námsritgerð við íslenskuskor Háskóla Íslands, Reykjavík.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2005. Ljóðstafurinn s í íslenskum kveðskap. Són, tímarit um óðfræði.
Sighvatur Þórðarson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A I. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.
Sigurður Kristófer Pétursson. 1996. Hrynjandi íslenskrar tungu. Ljósprentað eftir 1. útgáfu í Dögun ehf., Reykjavík.
Snorri Sturluson. 1999. Edda: Háttatal. Edited by Anthony Faulkes. Viking Society for Northern Research. University College of London. First published by Clarendon Press in 1991.
Sturla Þórðarson. 1967. Den norsk-islandske skjaldedigtning ved Finnur Jónsson A II. Rosenkilde og Bagger, Kaupmannahöfn.
Sveinbjörn Beinteinsson. 1953. Bragfræði og háttatal. H.f. Leiftur, Reykjavík. Ritstjórar Kristján Eiríksson og Þórður Helgason. Reykjavík.