Saga ljóðstafsins s í örfáum orðum

Frá landnámsöld (reyndar fyrr, elstu skáldin eru norsk) og fram til 1400:
sk stuðlar við sk; sp við sp; sm við sm; st við st (gnýstuðlar). Framstöðuhljóðin sl, sn og s+sérhljóð mynda einn jafngildisflokk. Þeim flokki tilheyra einnig sj og sv; j og v voru hálfsérhljóð. Þetta kallast s-stuðlun.
 
1400 til u.þ.b. 1700:
sk stuðlar við sk; sp við sp; sm við sm; st við st. Auk þess: sl stuðlar nú aðeins við sl og sn við sn (hér hafa bæst við tveir gnýstuðlar). Þessi tvö síðastnefndu hljóð stuðla ekki lengur við s+sérhljóð, sj og sv. Aðeins ber á því að sl og sn stuðli við st (sníkjuhljóðsstuðlun).
 
Byrjun 18. aldar til miðrar 20. aldar (þetta er erfitt að tímasetja nákvæmlega):
Nokkur skáld taka aftur upp s-stuðlunina eins og hún var fyrir 1400. Allt hitt er áfram í gildi. Nokkur skáld taka upp sníkjuhljóðsstuðlun sem nú fær nokkra útbreiðslu.
 
Fyrri hluti 20. aldar til dagsins í dag:
s-stuðlun hverfur nánast alveg; sníkjuhljóðsstuðlun helst. Gnýstuðlarnir eru áfram sex: sk, sl, sm, sn, sp og st. Framstöðuklasarnir sj og sv mynda enn jafngildisflokk með s+sérhljóði.