Ragnar Ingi Aðalsteinsson

Ragnar Ingi Aðalsteinsson fæddist á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal 15. janúar 1944. Hann er yngstur tíu barna þeirra Ingibjargar Jónsdóttur og Aðalsteins Jónssonar, sem bjuggu á Vaðbrekku frá 1922 til 1971.

Ragnar Ingi ólst upp á Vaðbrekku og átti þar heima til ársins 1970 er hann flutti heimili sitt til Reykjavíkur. Hann stundaði nám í barnaskólanum á Skjöldólfsstöðum og lauk þaðan unglingaprófi vorið 1958. Landsprófi lauk hann frá Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað vorið 1962 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Laugarvatni vorið 1969. Árið 1982 lauk hann réttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands og meistaragráðu í kennslufræðum frá sama skóla árið 2000. Árið 2004 lauk hann meistaragráðu í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands og doktorsritgerð sína varði hann við þá sömu stofnun haustið 2010.  

 

Ragnar Ingi hefur lengst af starfað sem kennari, framan af við ýmsa grunnskóla en frá 2002 hefur hann verið aðjunkt við Kennaraháskóla Íslands sem nú eftir sameiningu háskólanna tveggja heitir Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hann hefur meðfram kennslu fengist við ritstörf, einkum ljóða- og námsefnisgerð. Í seinni tíð hefur hann einnig ritað fræðigreinar, einkum um bragfræði.