Ágætu lesendur

Hér til vinstri á síðunni er talið upp það sem heimasíðan mín hefur að geyma. Þar eru nokkrar stuttar greinar um bragfræði og í Bókahillunni er hægt að skoða myndir af bókunum mínum flestum. Nokkur ljóð er hér að finna. Upphaflega var hér þáttur sem hét Ljóð vikunnar en ég hafði aldrei tíma til að uppfæra þann þátt og hann hefur því fyrir löngu verið felldur niður. Hér er svo ritaskráin mín og undir liðnum sem ber heitið Kennsla eru tvær greinar um bragfræðikennslu ásamt sýnishornum af heimildaskráningu samkvæmt APA-kerfinu. Þá hef ég sett inn nokkra pistla um bragfræði. Þeir verða hugsanlega fleiri þegar fram í sækir.

Kveðja

Ragnar Ingi

 

Ljóð vikunnar

Málsbótakvæði flutt að Heiðarási 12 7. maí 2010

Þið vinir, sem saman hér komið í kvöld

til kveðskapar hugann ég eggja.

Því margs konar vitru og margvísleg gögn

til málsbóta fram vil ég leggja.

Því þó að ég hámi í mig hafra og korn

við hnjóðsyrði vífa og seggja

og þó mér til svölunar sötri ég vatn

er ég samt ekki farinn að hneggja.

 

Ég forðast að sjálfsögðu soðmeti allt

og sumir því kalla mig aula.

Ég innbyrði baunir og ávexti og fræ

þegar innyflin taka að gaula.

En ykkur til fróðleiks ég upplýsi nú

því svo oft er ég spurður í þaula:

Þótt éti ég kálmeti, saltstein og söl

er ég samt ekki farinn að baula.

 

Af einurð og festu ég sigli minn sjó

og síst mun ég kjötmetið harma.

Af stökustu varúð ég vel það sem fer

um vélindi, maga og þarma.

Og fyrir það margs konar þoli ég þref

en það er mitt jákvæða karma

að þótt ég sé sauðþrár og svelgi mitt gras

er ég samt ekki farinn að jarma.

 

Við dýrin ég samdi í fyrndinni frið

og fráleitt að níðist ég á þeim.

Og griðland því eiga þau ávallt hjá mér

því er ég í náðinni hjá þeim.

En þó er eitt ágreininsefni við mig

sem alls ekki hægt er að lá þeim.

Því ég verð að næra mig jurtunum á

og ét þá að sjálfsögðu frá þeim.

 

Þið vinir, sem hittist og hrífist í kvöld

hve hollt er að gleðjast og vaka.

Og kvæðið það bergmálar þref mitt og þrugl

og þar var af nógu að taka.

En sitthvað var galið er sagði ég þar

og sumpart ég tek það til baka.

Því þegar ég svani á loftbrúnni lít

ég leyfi mér stundum að kvaka.

 

 

rai2
Ragnar Ingi Aðalsteinsson
ljóðskáld, rithöfundur og aðjunkt, fæddist árið 1944
á Vaðbrekku í Hrafnkelsdal.
Nánar
April 2024 May 2024
Su M& &t Mi Fi F& La
1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30